28.11.2011
Gjöf til Nobiru grunnskólans í borginni Higashi Matsuyama

Vinir Japans vilja þakka fyrir stuðninginn og samvinnuna á viðburðinum Brosandi börn sem fram fór í september í húsnæði Háskólans í Reykjavík. Í tengslum við viðburðinn söfnuðust 415.000 krónur, bæði á deginum sjálfum og með rausnarlegum framlögum fyrirtækja og einstaklinga.

Söfnunarféð (280.010 japönsk yen, á genginu 1,48) var sent í gegnum Íslensk-japanska félagið til góðgerðarsamtakanna Hearts of Gold í Japan nú í október. Samtökin notuðu féð til að greiða fyrir 7 saumavélar og færa Nobiru grunnskólanum í borginni Higashi Matsuyama.

Skólinn gjöreyðilagðist í flóðbylgjunni sem reið yfir eftir jarðskjálftann nú í vor og í kjölfarið hafa margir af þeim nemendum sem lifðu hamfarirnar af flutt á brott og dreifst víða um Japan. Þeir nemar sem enn eru í skólanum sækja nám í húsnæði til tímabundinna nota.

Ljóst er að gjöf sem þessi getur hjálpað til við að stuðla að því að koma skólastarfi aftur í réttan farveg. Meðfylgjandi er mynd frá nemendum skólans þar sem þau þakka ykkur fyrir stuðninginn frá Íslandi.