13.11.2012
Ljósmyndasýning: TÓKÝÓ Í LIT

Árni Kristjánsson heldur ljósmyndasýninguna TÓKÝÓ Í LIT nú um helgina (17.-18. nóvember 2012) klukkan 11-17. Sýningin er haldin á KEX Hostel (í veislusal á 2. hæð, inn til vinstri) á Skúlagötu 28, 101 Reykjavík. Hvetjum félaga til að mæta á þessa áhugaverðu sýningu.

Um ljósmyndarann og sýninguna
Áhugi Árna á ljósmyndun hófst í menntaskóla en fór á skrið eftir að hann kynntist ódýrum japönskum filmuvélum í Japan. Árni hélt sýna fyrstu ljósmyndasýningu á svart/hvítum filmumyndum frá 22. til 28. júlí 2012 í galleríi "Lift Cafe", sem er í Matsudo-borg í norður-Tókýó. Sýningin bar titilinn "Myndir" og innihélt svart/hvít prent af 10 myndum.

Viðfangsefni mynda Árna er daglegt líf úr japönsku samfélagi og reynir hann að fanga stutt augnablik í daglegu lífi Japana og hina sérstöku birtu sem umvefur fólk og stræti Tókýó borgar. Myndirnar á sýningunni "Tókýó í lit" eru litmyndir sem teknar voru frá 2011 til 2012 víðsvegar um Tókýó og eru framkallaðar af filmu á ljósmyndapappír af Árna sjálfum.

Árni Kristjánsson er fæddur í Reykjavík 1981. Eftir útskrift úr Menntaskólanum í Hamrahlíð lá leið hans í japönskunám við Háskóla Íslands sem hann lauk í desember 2006. Í apríl 2008 fluttist hann til Japan og hóf nám í menningarfræðum ("cultural studies") við Tokyo University of the Arts. Hann lauk mastersgráðu í mars 2011 og lokaverkefnið, sem fjallaði um innkomu raftónlistarinnar "dubstep" til Japans, sameinaði langan áhuga hans á japönsku tungumáli, menningu og tónlist. Eftir útskrift hélt hann áfram í doktorsnám við sama skóla en viðfang núverandi rannsóknar hans er tilurð klúbbatónlistar og tilheyrandi menningar í Japan á fyrri hluta 10. áratugarins. Með náminu hefur hann starfað sem plötusnúður og við þýðingar úr íslensku yfir á japönsku, sem og skrifað greinar um danstónlist fyrir dagblaðið The Japan Times. 

www.arnikristjansson.com