01.02.2013
Japanshátíđ laugardaginn 2. febrúar í HÍ

Japanshátíð verður haldin þann 2. febrúar 2013 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands. Hátíðin er skipulögð í samvinnu Sendiráðs Japans á Íslandi og nemenda í japönsku máli og menningu við Háskóla Íslands.

Japanshátíðin hefur verið haldin í janúar ár hvert síðan árið 2005. Hátíðin í ár er því sú níunda í röðinni og þar utan er þetta merkisár þar sem að haldið er upp á tíunda starfsár deildarinnar. Eitt af sérkennum Japanshátíðarinnar er að flest allt það sem gestum og gangandi er boðið upp á að skoða er unnið og fram borið af nemendum í Japönsku máli og menningu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Almennar upplýsingar um nám í japönsku, hina ýmsu skólastyrki og skiptinám við japanska háskóla verða aðgengilegar á hátíðinni. Auk þessa verður hægt að nálgast upplýsingar um Íslensk-Japanska félagið, og Félag Japansmenntaðra á Íslandi.

Nemendurnir hafa lagt sig alla fram um að skipuleggja og kynna hin ýmsu atriði sem tengjast japönsku máli og menningu á einstakan og skemmtilegan hátt. Félagsskapur fólks af japönskum uppruna á Íslandi hefur einnig lagt hönd á plóg og stendur meðal annars fyrir japanskri teathöfn og japönskum blómaskreytingum (ikebana). Þar að auki munu ýmis félög vera með sýningu á budo (bardagaíþróttum).

Gestum hátíðarinnar er boðið að kynna sér japanskt líf og menningu. Á meðal þess sem í boði er má nefna; japanska matargerðarlist, japanska skrautritun, og kynningu á japanskri tungu. Gestum er einnig boðið að vera viðstaddir japanska teathöfn og smakka á því sem þar er borið fram. Einnig stendur til boða að kynna sér japanska borðspilið igo. Hægt verður að fá ljósmynd tekna af sér íklædd í hefðbundnum búning sem er alveg einstök upplifun. Gestir geta lika spreytt sig á karaoke ásamt því að skoða brot úr japönskum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Á hátíðinni verður einnig boðið upp á fræðslu um japanska poppmúsík (J-pop), japanska tölvuleiki, anime og manga. Gestir geta þannig kynnt sér japanska dægurmenningu og hvað hún hefur upp á að bjóða.

Á aðalsviði Háskólatorgs verður haldin spurningakeppni um Japan og japanska menningu, þar sem gestir geta spreytt sig á skemmtilegum og léttum spurningum. Einnig verður boðið upp á lifandi tónlist. Þar á eftir verður fyrsta Cosplay keppni deildarinnar haldin á sviðinu.

Enginn aðgangseyrir er á hátíðina og hún er opin öllum þeim sem vilja sækja hana. Hátíðin hefst kl. 13:00 og mun hún standa yfir til kl. 17:00.