11.03.2013
Natni og nestisbox

Á Stefnumótakaffi marsmánaðar í Gerðubergi, sem haldið er miðvikudagskvöldið 13. mars kl. 20, fjallar Gunnella Þorgeirsdóttir aðjúnkt í japönsku við HÍ um gildi og fegurð origami og innpökkunar í japanskri menningu. Í erindi sínu spjallar Gunnella um þætti sem oft gleymast, föndur og innpökkunar menninguna sem margir kannast aðeins við, oft er dregið dár að eða litið er framhjá en skiptir hinsvegar miklu máli þegar á heildina er litið. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Um kynni sín af þessum hluta japanskrar menningar segir Gunnella: "Sem barn man ég eftir að hafa rekist á mína fyrstu bók um japanska menningu. Þetta var krumpuð origami bók sem var hálf falin á milli doðranta í föndurhillunni á Borgarbókasafninu þangað sem hún hafði ratað eftir að hafa dvalið um sinn á barnabókadeildinni. Föndur og barnamenning er það sem flestir hugsa um þegar kemur að origami, en hinsvegar er það svo, að oft á tíðum eru það ekki stóru hlutirnir sem gera menninguna heldur þeir litlu, smáatriðin sem skipta svo miklu máli en eru ekki augljós hinu ókunna auga. Japönsk menning hefur alla tíð verið þekkt fyrir listfengi sitt og hefðir, fegurðina í einfaldleikanum".