03.04.2018
Ingimundur Sigfússon: Minningargrein

Okkur var að berast þær slæmu fréttir að Ingimundur Sigfússon, fyrsti sendiherra Íslands í Japan, er látinn. Við samhryggjumst fjölskyldu hans og vinum.

Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrrum formaður Íslensk-japanska félagsins bað okkur um að birta eftirfarandi minningartexta:

Minningarorð: Ingimundur Sigfússon

Leiðir okkar Ingimundar lágu saman eftir að hann tók við stöðu sem fyrsti sendiherra Íslands með búsetu í Japan árið 2001. Mikil gleði og eftirvænting ríkti í herbúðum Japans-vina við stofnun sendiráðanna í Tokýó og Reykjavík. Vinátta þjóðanna og samvinna af ýmsum toga hafði fram að þeim tíma að mestu verið borin uppi af framtaki einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka. Áratuga vináttu sem byggði á gagnkvæmri virðingu og trausti.

Eins og fyrrum formaður félagins komst að orði þá voru það: Draumar um sake og sendiráð sem voru hvatning til þess að Íslensk-japanska félagið var stofnað árið 1981. Nú var stundin runnin upp. Það var löngu tímabært að á opinberum vettvangi yrðu styrktar stoðir þeirrar ríku samvinnu sem til staðar var. Óhætt er að segja að fyrsti áratugur aldarinnar marki ákveðin tímamót í samskiptum landanna. Heimsmyndin var breytt og fjarlægð nánast orðin afstætt hugtak. Áhugi á Japan meðal nýrrar kynslóðar Íslendinga var mikill. Möguleikar til náms á japanskri tungu og menningu við Háskóla Íslands höfðu opnað enn fleiri dyr. Fleiri og fleiri gestir, stjórnmálamenn, fræði- og listamenn sóttu Ísland heim og áhugi á samvinnu jókst til muna. Tilkoma sendiráðanna auðveldaði öll samskipti og undirbúning. Það voru nýjir tímar.

Ingimundur reyndist Íslensk-japanska félaginu traustur samstarfsaðili frá upphafi. Hann var fljótur að setja sig inn í aðstæður og málefni er vörðuðu samskipti Íslands og Japans. Áhugi hans var einlægur. Ingimundur hafði mikinn skilning á mikilvægi tungmála og samvinnu á sviði mennta-, menningarmála og lista. Sem ungur maður hafði hann sjálfur dvalið erlendis, kynnst ólíkri þjóð, tungumáli og menningu. Honum var tíðrætt um miklvægi þess að eiga kost á að á ungum aldri að kynnast nýjum menningarheimum.

Í samvinnu félagins og sendiráðsins var skapaður nýr vettvangur íslenskra og japanskra ungmenna til að hittast og starfa saman. Fram að þeim tíma höfðu möguleikar til skiptináms milli landa einskorðast við seinni nám á meistara og doktors stigi. Árangur samstarfs þessa unga fólks átti eftir að skila miklu fyrir framtíð þeirra og vináttubönd. Við áttum farsæla samvinnu mörg fleiri mál og málaflokka alla þá tíð sem ég gengdi formennsku fyrir félagið.

Það voru ekki bara hvalir, eldfjöll, túrbínur og bílar sem tengdu okkar lönd. Í tungumálunum og tjáningu er að finna marga samnefnarar eins og í hinu táknræna samskiptaformi, gjarnan þögn sem oft segir meira en talað orð.

Ingimundur vann að heilindum að hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var óhræddur að leita nýrra leiða hvort heldur um var væri að ræða samvinnu á alþjóðavettvangi að eða nýrra tækifæra til viðskipta. Mér er minnistæð sú saga þegar einn japanskur embættismaðurinn tjáði honum að: “Kannski getur þýtt nei í Japan”. Þá svaraði Ingimundur: “Það þýðir þá að það er enn mögulegt”. Það er ekki öllum eðlislægt að byggja brú milli svo ólíkra menningarheima sem Íslands og Japans. Nýopnað sendiráð í Tokýó hafði viðamiklu hlutverki að gegna. Þar var lagður góður grunnur að mikilvægri samvinnu. Gestrisni og viðmót sendiherrahjónanna varð öðrum innblástur og saman unnu þau ómetanlegt starf.

Að loknum störfum sínum sem sendiherra átti hann sæti sem fulltrúi Íslands í stjórn Scandinavia-Japan Sasakawa stofnunarinnar frá 2006 og stjórn styrktarsjóðs Watanabe við Háskóla Íslands frá 2008. Hvorutveggja sjóðir sem hjálpað hafa mörgum námsmanninum sem og fræði- og listamönnum í að efla þekkingu sína og samvinnu á sviði lista og rannsókna.

Ingimundur var framsýnn, opinn og umburðarlyndur. Frumkvæði og sköpun voru að hans skapi. Virðing og traust eru hornsteinar í japönsku þjóðfélagi, menningu og viðskiptum. Sem okkar fyrsti sendiherra í Japan vann hann óeigingjart starf. Ég kveð hann með söknuði og jafnframt með stolti yfir að hafa fengið að vinna með honum á samvinnuvettvangi Íslands og Japans.

Gunnhildur Gunnarsdóttir
Formaður Íslensk-japanska félagsins 1999-2010