Lög Íslensk-japanska félagsins
  1. gr. Nafn félagsins er Íslensk-japanska félagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
  2. gr. Tilgangur félagsins er að auka og efla menningarsamskipti milli Íslands og Japans, kynna Ísland í Japan og Japan á Íslandi, auka gagnkvæma þekkingu og skilning þjóða þessara tveggja landa og efla vináttu þeirra í milli. Ennfremur er það markmið félagsins að greiða fyrir samskiptum listamanna, íþróttamanna og vísindamanna beggja þjóðanna.
  3. gr. Hver sá sem er sammála tilgangi félagsins og greiðir félagsgjöld þess getur orðið félagi í því. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda eða afhenda einhverjum stjórnarmanna þess. Fyrirtæki og einstaklingar geta gerst styrktaraðilar. Óski stærri hópar eða félagasamtök eftir aðild að Íslensk-japanska félaginu skal ákvarða um umsóknarbeiðnina á aðalfundi. Einungis almennir félagsmenn hafa atkvæðisrétt.
  4. gr. Reikningsár skal vera frá 1. janúar ár hvert til 31. desember þess sama árs. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi til umræðu.
  5. gr. Stjórnin boðar til félagsfunda. Skulu þeir boðaðir bréflega og/eða með tölvupósti, með viku fyrirvara. Fari tíu félagar eða fleiri, skriflega fram á fund, er stjórn ennfremur skylt að boða til fundar.
  6. gr. Í stjórn eiga sæti 5 menn; formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Stjórnin skiptir með sér störfum á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund, nema formaður sem kosinn er sérstaklega. Stjórnin skal halda með sér a.m.k. fjóra fundi á ári.
  7. gr. Aðalfundir skulu haldnir árlega og ekki síðar en í apríllok. Til aðalfundar skal boða með a.m.k tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi skulu vera eftirfarandi dagskrárliðir: 1. Formaður setur fund og leggur fram tillögu um fundarstjóra. 2. Skýrsla stjórnar. 3. Skýrsla gjaldkera. 4. Umræður um skýrslur stjórnar og gjaldkera. 5. Lagabreytingar. 6. Kosning formanns. 7. Kosning stjórnar. 8. Skoðunarmaður reikninga kosinn (og einn til vara). 9. Árgjald ákveðið. 10. Önnur mál.
  8. gr. Stjórnin er kosin á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstakri kosningu til eins árs. Sá er rétt kjörinn formaður sem fær flest atkvæði. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, þannig að á hverjum aðalfundi eru kosnir stjórnarmenn. Kosning skal vera leynileg sé þess óskað. Stjórn hefur leyfi til að ráða sér framkvæmdastjóra eða sérstaka verkefnisstjóra þyki ástæða til.
  9. gr. Til að leggja félagið niður þurfa a.m.k. ¾ hlutar félaga á tveimur löglegum fundum, með ekki skemmri tíma en mánuð á milli sín, að greiða atkvæði með tillögu um slíkt.
  10. gr. Lögum félagsins er breytt á aðalfundi. Lagabreytingatillögur verða að vera lagðar fyrir stjórn félagsins tíu dögum fyrir aðalfund. Til að breyting á lögum öðlist gildi þurfa 2/3 greiddra atkvæða að vera samþykk henni.

(Síðast breytt á aðalfundi 2011)