Kvikmyndir

Japanskar kvikmyndir þróast í stórum dráttum í tvær áttir, samúræjamyndir (jidaigeki) þar sem húsbóndalausi samúræinn (ronin) nýtur mestra vinsælda og myndir um samtímann (gendaigeki).

Samtímamyndirnar eru undir sterkum áhrifum frá vestrænum raunsæishöfundum eins og Ibsen, Tsjekov og Gorky og síðar amerískum kvikmyndum. Meðal áhrifavalda var sería af klukkutíma löngum myndum, Bluebird Productions, gjörsamlega gleymdum á Vesturlöndum. Þessar myndir höfðu einfaldan söguþráð og þar viðgengst ákveðin tegund af raunsæi. Ushihara, Kinugasha, Gosho og Ozu hafa allir nefnt þessi áhrif. 

Einföldun hefur alltaf höfðað til japanskra listamanna. 

Kvikmyndagerðarmenn voru til dæmis mjög uppteknir af rammanum, listinni að skera myndina. Þetta kemur glöggt fram hjá leikstjóra eins og Kenji Mizoguchi. Raunsæi hans er fólgið í að raða og kompónera í hinn afmarkaða "ramma". Annars var stíll hans asmsuða úr ýmsum áttum eins og hann viðurkenndi sjálfur. Fyrst eftir 1936 "gat ég loksins lært að sýna lífið eins og ég sé það" er haft eftir honum. Í verkum Mizoguchi má frekar en hjá nokkrum öðrum leikstjóra finna fallegan samruna vestræns raunsæis og hinnar tæru en stílfærðu japönsku fagurfræði. Þetta er augljóst í Systurnar frá Gion (Gion no shimai), 1936), mynd sem hann sagði vera upphafið af fullmótuðum stíl sínum. Í henni notar Mizoguchi langt á undan örðum leikstjórum löng og nákvæmlega skipulögð myndskeið með samverkandi hreyfingum tökuvélar og leikara til að skapa sérstaka spennu.

 

Texti tekinn úr fréttabréfi íslensk-japanska félagsins 4.tbl. september 2001 (höf:Þorsteinn Jónsson)