12.03.2012
Įr lišiš frį jaršskjįlftanum ķ Japan

Í gær, sunnudaginn 11. mars 2012, var ár liðið frá jarðskjálftanum og flóðbylgjunni á Tohoku svæðinu í Japan. Rúmlega 25.000 manns týndu lífi eða er enn saknað. Haldin var bænastund í Grensáskirkju líkt og víðsvegar um heim til að minnast fórnarlamba hamfaranna.

Í ávarpi Akihito Japanskeisara í japanska Þjóðleikhúsinu í Tokyo í gær minnti hann á að minningin um hamfarirnar megi ekki dofna. Á sömu athöfn tók til máls Yoshihiko Noda, forsætisráðherra Japans, en í máli hans kom fram loforð um áframhaldandi enduruppbyggingu á svæðinu til að gera Japan að enn betri stað en áður.

Dagskrá á Háskólatorgi
Í dag stóðu nemendur japönskudeildar Háskóla Íslands ásamt skiptinemum frá Japan fyrir viðburði á Háskólatorgi HÍ til að minnast jarðskjálftans og fórnarlamba hans. Þar voru tónleikar með íslensku tónlistarkonunni Sóleyju, ljósmyndasýning frá hamfarasvæðunum ásamt því að gerðar voru eittþúsund Origami trönur. Þá var einnig haldin kertafleyting, að japönskum sið, við Ráðhús Reykjavíkur kl. 20 í kvöld eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.