Saga félagsins

Fyrstu íslendingarnir, sem stunduðu nám í Japan um eitthvert árabil, fóru að snúa heim til ættjarðarinnar í byrjun níunda áratugarins. Þeir vildu þá viðhalda góðum minningum um Japan og halda sambandi við land og þjóð á annan veg en gert er í viðskiptum. Fundur var auglýstur og haldinn í turnhergergi Hótel Borg og mættu um 17 manns, en segja má að eftirtaldir aðilar hafi verið stofnendur félagsins: Ragnar Baldursson, Jónas Hallgrímsson, Kristín Ísleifsdóttir, Þorsteinn Jónsson, sem öll voru nýkomin frá Japan, svo og Eysteinn Þorvaldsson og Yoko Þórðarson. Stofndagur félagsins var 26. nóvember 1981.

Markmið með stofnun félagsins var að efla menningartengsl Íslands og Japans, kynna Ísland í Japan og Japan á Íslandi, dýpka vináttu með því að auka gagnkvæma þekkingu og skilning þjóðanna í milli. Félagið vildi beita sér fyrir að greiða fyrir samskiptum lista- og vísindamanna, íþrótta- og námsmanna beggja þjóða.

Markmið félagsins voru háleit en fyrstu árin voru félagsfundir, einkum matar- og skemmtifundir oftast í tengslum við heimsóknir japanskra vísindamanna s.s. í jarðfræði og norrænum fræðum. Fundargerðarbækur voru sjaldnast þar sem þær áttu að vera og liðu stundum mánuðir ef ekki ár að ekkert var ritað í þær.

Texti tekinn úr bókinni Íslensk-japanska félagið / Japansk-íslenska félagið, september 1996 (höf: Kristín Ísleifsdóttir)