Akido

Aikido er japanskt sjálfsvarnarform sem var þróað snemma á 20. öldinni af Morihei Ueshiba. Aikido er nokkuð skylt judo og jiu-jitsu en er þó ólíkt þeim og öllum öðrum sjálfsvarnar-íþróttum að því leiti að ekki er um árásatækni að ræða. Líkt og í judo er mikið um köst og hvers kyns lása en þó aldrei neitt sem byggir á beinum líkamsstyrk. 

Ólíkt judo hefur aikido þó ekki verið þróað sem keppnisíþrótt. Mikil áhersla er lögð á andlega uppbyggingu. Æfing aikido er íþrótt í upprunalegri merkingu þess orðs "að skemmta sér í líkamlegri áreynslu og leika sér af gleði". Íþrótt í sínu hreinasta formi hefur ekkert með útkomuna að gera. Í bók sinni, Budo, skrifaði Morihei Ueshiba:

"Íþróttir eru útbreiddar nú til dags og þær eru góðar til líkamlegrar þjálfunar. Stríðsmenn æfa einnig líkamann en þeir nota líka líkamann sem verkfæri til að þjálfa hugann, stilla andann og finna fegurð, en það vantar í íþróttir. Æfing aikido stuðlar að hugrekki, einlægni, veglyndi og fegurð auk þess sem það gerir líkamann stæltan og fallegan."

Eðli aikido er þannig að allir geta æft saman óháð kyni, aldri, styrkleika og þyngdarflokkum. Með því að æfa með mismunandi æfingafélögum lærist að aðlaga tæknirnar að þeim aðstæðum sem koma upp. Æfingar með fjölbreyttum hópi hjálpa fólki einnig í daglega lífinu - iðkendur þjálfast í samskiptum við mismunandi einstaklinga.

Á Íslandi hefur aikido verið æft síðan 1990. Aikikai  Reykjavíker eina félagið sem stendur fyrir reglulegum æfingum í aikido. 

Sjá heimasíðu Aikido á Íslandi